Dagurinn í gær gekk vel hér í Vatnaskógi. Reyndar hefur blásið talsvert á okkur og því gátum við ekki opnað bátana. Hins vegar hefur verið nokkuð hlýtt þar sem skjól er og því bauð útileikjaforingi upp á gönguferð í Oddakot, sem er baðströnd við austurenda vatnsins. Nokkrir drengir þáðu það tilboð, léku sér í sandinum og busluðu í vatninu.
Það eru hins vegar íþróttir sem hafa átt hug flestra drengjanna, mikil og góð þátttaka hefur verið í knattspyrnu sem og frjálsum íþróttum. Inn í íþróttahúsi hefur einnig verið boðið upp á körfubolta og fleira. Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á íþróttum er hins vegar nóg að gera á smíðaverkstæðinu og margur listagripurinn sem þar hefur orðið til. Í gærkveldi voru einnig blásnir upp hoppukastalar og vöktu þeir mikla lukku.
Dagurinn endaði svo á kvöldkaffi og kvöldvöku og voru drengirnir sofnaðir um 22:30

Myndir frá gærdeginum má sjá hér Í dag hefur áfram blásið úr norðaustri og því eru bátarnir ekki opnir en við höfum boðið upp á bátsferðir á mótarbát staðarins. Fréttir og myndir frá deginum í dag koma hingað inn á síðuna á morgun.
Kveðjur úr Vatnaskógi
Þráinn