Þá erum við að komast á lokapunktinn í 3. flokki hér í Vatnaskógi. Það verða lúnir en vonandi glaðir drengir sem skila sér heim í kvöld.
Ég ákvað að skrifa síðasta pistil flokksins núna, þar sem ekki gefst tími til þess í kvöld hjá mér.
Dagurinn mótast töluvert af því að í kvöld verður farið heim. Einnig er þetta sunnudagur og þá breytum við aðeins út af venjunni og leyfum strákunum að sofa aðeins út. Þeir voru vaktir kl. 9 í stað 8:30…já, já…það er fínt útsof.
Í stað hefðbundinnar morgunstundar, þá vorum við með Skógarmanna guðþjónustu. Þessi guðþjónusta er sniðin að Vatnaskógi og voru drengirnir vel með á nótunum að venju.
Eftir messuna var boðið upp á Brekkuhlaupið. Þetta er eitn skemmtilegasta greinin í frjálsum sem við erum með. En það er hlaupið upp að hliði og aftur til baka. Þetta eru um tveir km. og það tekur drengina frá 8 – 12 mínútur að hlaupa þetta
Nú er að koma hádegismatur og strax í kjölfarið á honum verða strákarnir að byrja að pakka saman dótinu sínu. Við smölum saman flíkum og skóm sem þeir hafa einhverra hluta vegna skilið eftir hér og þar. Þetta verður síðan allt auglýst í kaffitímanum á eftir.
Veisludagskráin hefst svo kl. 17:00. Veislumatur á mælikvarða strákanna verður borinn fram. Pizzur og pepsí. Stanslaus dagskrá verður svo þangað til þeir stíga upp í rúturnar. Verðlaunaafhending, sjónvarp Lindarrjóður en þar fara foringjarnir yfir helstu þætti í flokknum. Mikið verður sungið og sprellað ásamt því að framhaldssagan verður kláruð.

Ég kem til með að setja inn myndir frá deginum um leið og tækifæri gefst.
Ég þakka fyrir mig.
Árni Geir Jónsson
Forstöðumaður.