Í kvöld verður forsýning á rokkóperunni !Hero í Loftkastalanum. Hópur af ungu fólki innan KFUM og K er að setja upp þessa glæsilegu sýningu og verður frumsýning á föstudaginn 6. mars.
Við spjölluðum lítillega við yngstu leikkonurnar í sýningunni, systurnar Ólöfu Lenu Inaba Árnadóttur, 8 ára og Örnu Katrínu Inaba Árnadóttur, 4 ára.
Hvað leikið þið í !Hero?
Ólöf Lena: Ég leik dóttur Jairusar og er líka í kórnum
Arna Katrín: Ég leik krúttið í sýningunni.
Er gaman að leika í svona sýningu?
Ólöf Lena: Mjög gaman
Arna Katrín: Sérstaklega gaman hjá mér út af því að mér finnst skemmtilegt að vera í Loftkastalanum.
Hvað er skemmtilegast við að taka þátt í þessu?
Ólöf Lena: Mér finnst bara svo gaman að leika. Kannski ætla ég að verða leikkona og rokkkona sem spilar á bassa þegar ég verð stór.
Arna Katrín: Það er svo gaman að leika við Svenna og hina leikarana.
En Arna Katrín, hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Arna Katrín: Bara krúttið.
Er eitthvað sem þið viljið segja þeim sem eru að hugsa um að koma að sjá sýninguna?
Ólöf Lena: Þetta er bara æðisleg sýning, endilega komið því þið eigið eftir að skemmta ykkur svo vel að þið dansið örugglega fram af stólunum ykkar!
Arna Katrín: Hrafn er skrýtinn fugl, hann er með vængi og er ekkert eins og strútur.