Föstudaginn síðastliðinn var leiðtogum og öðrum sjálfboðaliðum boðið til kvöldverðar hér í Þjónustumiðstöðinni. Tilefnið var að þakka fyrir það óeigingjarna starf sem okkar fólk sýnir í þágu félagsins og æsku landsins. Skyrgámur kom í heimsókn og stjórnaði fjöldasöng, Grillmeistarinn Gunnar úr KFUM í Hafnarfirði sá um matinn og fjöldi Bingó vinninga flaug um salinn. Við starfsfólk og stjórn KFUM og KFUK á Íslandi vildum þakka fyrir þetta óeigingjarna starf þar sem það er ekki sjálfsagt að barn brosi eða gleðjist í hverri viku en með starfi sjálfboðaliðanna okkar erum við búin að tryggja að á annað þúsund börn brosi, gleðjist og finni fyrir hinum sanna kærleik Jesú Krists í hverri einustu viku. Sjálfboðaliðarnir tryggja að allur þessi fjöldi barna og unglinga kynnist góðum og jákvæðum gildum sem þau geta notað í sínu daglega lífi, í samskiptum við annað fólk. Starf KFUM og KFUK eykst og eykst og æ fleiri sækjast eftir þeim kærleika sem Jesús kenndi. Við getum verið stolt af starfinu okkar og gætum við aldrei gert þetta góða starf nema með þeirra framlagi.