Hverjum manni ber réttur til þess þjóðfélags- og milliþjóðaskipulags, er virði og framkvæmi að fullu mannréttindi þau, sem í yfirlýsingu þessari eru upp talin.“ (Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, 28. gr.)

5. DAGUR: RÉTTLÆTI OG FRIÐUR KYSSAST

Ritningarlestur: 2. Mósebók 3.1-12
„Ég hef… heyrt kvein [þjóðar minnar]“ (2 Mós 3.7).

Fyrir kristna menn, sem vilja vinna að endurnýjun lífs á jörðu, er skilningur Biblíunnar á réttlæti og friði ekki aðeins nokkuð sem vísa má til í því skyni að greina fortíðina, heldur er hann sú fyrirmynd og það tæki sem nota skal til að skapa nýja framtíð. [Sumar kirkjur] líta hvorki á Ritninguna sem handbók til lausnar á vandamálum né sem reglugerð fyrir siðferðilega breytni, heldur sem innblásna frásögn af raunverulegum erfiðleikum fólks, sem barðist við að losna úr ánauð, kúgun og vonleysi með trúna á réttlátan Guð að leiðarljósi, á þann Guð sem er fær um að leiðrétta allt, sem úrskeiðis hefur farið, og endurreisa allt, sem hrunið hefur. Þetta verður fyrir tilstilli náðarríkra verka endurlausnar eða hjálpræðis innan ramma sögunnar.
Í augum [sumra kirkna] nú á dögum þarf því að hefja leitina að réttum skilningi á réttlæti og friði, þar sem Ritningin sjálf hefst – nefnilega með því að samsama sig fórnarlömbum raunverulegrar fátæktar, raunverulegrar misnotkunar, raunverulegs ójafnræðis, raunverulegs ofbeldis, raunverulegrar kúgunar. Aðeins þá getum við áttað okkur á því, hvort kraftur Guðs til aðgerða er sjálfur raunverulegur – hvort hann er fær um að umbreyta þeim efnislegu og andlegu skilyrðum, sem fólk býr nú við.
Við getum ekki skilið hina dýpri merkingu í „kveini þjóðar minnar,“ nema við séum okkur meðvituð um allt svið hinnar biblíulegu hefðar, þar sem boðskapur og þjónusta Jesú Krists er miðlæg.
Í Gamla testamentinu vaknar spurningin um réttlæti þegar kvein þjáningar eða reiði er rekið upp andspænis einhvers konar þrældómi eða kúgun. Það er örvæntingarfullt kvein til aðgerða, bæn til hins almáttuga skapara um að gera eitthvað, um að starfa, um að vinna að því að gera samfélagið heilt að nýju, um að frelsa úr líkamlegri ánauð, um að leiðrétta það, sem farið hefur á mis, um að koma á réttlæti fyrir fátækt fólk sem hefur verið svikið eða rænt.
Reynist stofnanir samfélags með öllu ófærar um að vera endurbættar til myndar Guðs réttlætis, þá er þörf – og aðeins þá – á róttækari dómi. Þegar þar er komið sögu starfar Guð í þágu hinna undirokuðu, ekki til að endurbæta kerfið, heldur til að eyðileggja það og koma öðru á.
Í Gamla testamentinu er réttlæti skilgreint með því náðarverki Guðs, þegar hann leysir Ísraelslýð úr sínum sérstöku sögulegu aðstæðum, í þrældómnum í Egyptalandi. Það er þetta frelsunarverk, fremur en arfleifð forfeðra fólksins eða þjóðerni þess, sem myndar grundvöll sáttmálans á milli Guðs og þjóðar hans.
„Þið hafið séð hvernig ég hef farið með Egypta og hvernig ég hef borið ykkur á arnarvængjum og flutt til mín. Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir…“ (2 Mós 19.4-5).
Guð heitir trúfesti sinni og miskunn (hesed á hebresku), og þjóðin lofar að halda sáttmálann með því að fylgja því lögmáli, sem á að tryggja réttlát samskipti í þjóðfélaginu.
Réttlæti leiðir til friðar. Þegar sigur hefur unnist á óréttlætinu og félagsleg tengsl hafa verið endurreist, þegar meðlimir samfélagsins hlýða ákalli Guðs um að miðla „hinum hungruðu af brauði þínu, hýs[a] bágstadda, hælislausa menn“ (Jes 58.7), aðeins þá kemst á sannur friður (shalom). Já, þá munum við sjá hinn sanna shalom: „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast“ (Sálm 85.11).
Af þessu má sjá, að að skilningi Biblíunnar merkir réttlæti ekki „lög og reglu“ eða að „gjalda öllum það sem honum eða henni ber;“ og friður merkir ekki það að vera laus við stríð eða fallast í þögn á núverandi ástand. Í Ritningunni er með bæði friði og réttlæti átt við, að samband allra hluta sé í fullkomnu jafnvægi undir stjórn hins eina Guðs náttúrunnar og sögunnar.
Þegar við lesum og rannsökum orð Jesú í 5.-9. kafla Matteusarguðspjalls, opnast okkur lykill að nýjum skilningi á Gamla testamentinu og við uppgötvum sanna merkingu orðanna „Ég hef heyrt kvein þjóðar minnar“ (2 Mós 3.7). Kveinstafir hinna fátæku stigu upp til Guðs og hann heyrði þá (2 Mós 2.23). Guð hlýddi á neyðaróp þeirra og minntist sáttmála síns við forfeður þeirra.
Með orðum sínum og verkum sýndi Jesús okkur hvað í því felst að vera sá Guð sem heyrir kveinstafi hinna snauðu. Jesús gekk um og hlýddi á kvein samferðamanna sinna, sér í lagi kvein þeirra, sem mest höfðu verið útskúfaðir úr samfélagi manna. Hann hlýddi á þögul kvein hinna fátæku, sem engan málsvara áttu sér. Og þegar Jesús svaraði kveinstöfum þeirra, endurheimti hann hina sönnu, frelsandi mynd Guðs, en vakti um leið efasemdir, um að hin almenn vitneskja um þennan Guð væri rétt. Fyrir tilstilli orða og verka Jesú opnuðust augu manna, og þeir þekktu í honum eldforna en um leið síunga nærveru Jahves. Þeir sáu í Jesú spámanninn sem koma skyldi, ÞJÓNINN sem átti að frelsa fólkið. Þess vegna túlkuðu þeir Gamla testamentið í ljósi þess Nýja.
(Útdrættir úr „I have Heard the Cry of My People… For Peace with Justice“ og úr biblíulestrum eftir samkirkjulegan hóp í Brasilíu undir forystu séra Miltons Schwantes og föður Carlosar Mesters. Viðbótarnámsefni, punktar fyrir biblíulestur, Áttunda þing Lútherska heimssambandsins, Curitiba, Brasilíu, 30. janúar – 8. febrúar 1990. Notað með leyfi. Þýð: Þorgeir Arason)

Fyrir umræður í hópum
Hverjir eru kveinstafir þjóðar okkar nú á tímum? Hvar skortir mest á, að réttlæti og frið sé að finna? Hvaða hlutverk getur KFUM og KFUK leikið við að koma hinum undirokuðu í samfélagi okkar til hjálpar? Hvaða hlutverk getur ungt fólk leikið við að tryggja það, að friður og réttlæti viðhaldist?

Bæn
Guð friðar og réttlætis, láttu nú frið verða að veruleika, í samfélögum okkar, þjóðum og í heiminum öllum. Veittu okkur innblástur og leiddu gerðir okkar til heilla, svo að við bregðumst við kveinstöfum lýðs þíns með kærleika og trúfesti að leiðarljósi